Ég tók þátt í umræddum æfingarróðri og þegar í land var komið var rætt við mig um mikilvægi þess að skrifa um þetta pistil í þeim tilgangi að hann gæti nýst í umræðu um róðraröryggi og tók ég jákvætt í það. Óhætt er að segja að þessi þráður þjóni vel því hlutverki sínu og þarf enginn að taka óstinnt til sín gagnrýnina sem hér birtist þegar öryggismál eru annars vegar.
Guðni lýsir þessu á greinargóðan hátt þótt mér finnist lýsingin á köflum dálítið færð í stílinn, a.m.k. miðað við hvernig ég upplifði aðstæður. Þeir sem voru ekki á staðnum þurfa ekki að draga þá ályktun að þarna hafi verið stórsjór sem hafi valdið erfiðri og hættulegri landgöngu svipað og búast má við þegar komið er af rúmsjó. Þvert á móti var ekki mikil ölduhæð þótt blési hressilega og var vel undir einum metra að ég tel. Þetta var auðséð áður en við lögðum frá landi og því átti ég tiltölulega auðvelt með að komast í land á öruggan hátt, m.a. eftir ráðleggingum frá Guðna um að fara rólega. Besti vitnisburðurinn um ölduganginn er að eftir "rótið" í fjörugrjótinu þar sem Valley báturinn var í volki, sá varla rispu á honum þegar að ég dró hann upp á land.
Almennt þurfa menn að gefa sér góðan tíma til að venjast nýjum fararskjótum og gildir einu hvort um er að ræða bíl, hjól eða bát. Í ljósi þess að ákveðið var að fara út, voru það mín mistök vegna aðstæðna að fara ekki á mínum eigin Kitiwec sem ég er mun vanari að róa og bregðast við gagnvart veltu. En þar með er ég þó ekki að fullyrða að ég hefði náð að snúa honum upp í vindinn ef ég hefði misst hann þvert á vind, en tel minni líkur til að ég hefði velt honum í þeirri viðleitni.
Síðla sumars kláraði ég undirbúnings æfingu undir leiðsögn hinna ágætu Breta sem hingað komu vegna BCU prófsins. Þeir lögðu á það áherslu að menn létu samferðafélagana vita áður en lagt er í hann, hvort viðkomandi eða búnaður hans væri berskjaldaður á einhvern hátt. Fyrir ferðina tjáði ég ferðafélögunum að þetta væri meiri vindur en ég hefði róið í áður. Vissulega hefði ég átt segja þeim skýrt og skorinort að bátinn þekkti ég ekki nógu vel í roki. Stefnan á fjósakletta hefði þá að öllum líkindum verið tekin beint upp í vindinn fyrst og síðan róið með landi þar sem meira skjóls gætti í átt til klettanna. Á öllu þessu svæði var bakaleiðin tiltölulega auðveld og áætlun um að meta stöðuna þar hefði í sjálfu sér verið í lagi ef ég hefði fylgt þessu eftir eins og mér bar að gera. Þess má geta að þessa leið rérum við eftir atvikið og hjálpaði það mér mikið að öðlast sjálfstraustið á ný. Þakka ég félögunum hvatninguna sem ég fékk frá þeim til að enda túrinn á þennan hátt.
Í stuttu máli hefði ég vissulega átt að taka þá ákvörðun í upphafi að aðstæður væru of erfiðar fyrir mig. En þetta er búið og gert, allt fór vel og hvað sem öðru líður mun þessi eftirminnilegi dagur nýtast okkur vel í framtíðinni sem dýrmæt reynsla sem mun stuðla að aukinni varkárni.
Að lokum vil ég bæta því við að allar ákvarðanir um aðgerðir voru teknar af yfirvegun og aldrei neitt fát í gangi, sem er ekki veigalítið atriði í sjálfu sér. Sömuleiðis, og það segi ég hér án þess að ég sé að storka hvorki ykkur sem vissulega er annt um öryggi okkar, né örlögunum á nokkurn hátt, að ég hafði lúmskt gaman að þessu öllu. Það getur verið frískandi að kynnast náttúruöflunum í sinni ögrandi og ferskri mynd þegar slíkt veldur hvorki hræðslu né skaðar neinn, svipað og þegar skíðað er utan brauta í þungri sjókomu og slæmri færð.