29. júní til 1. Júlí – Hofstaðavogur-Kolgrafafjörður-Grundarfjörður (Sjóbátar)
Þó að framundan sé Jónsmessunæturróður næstu helgi er nauðsynlegt að huga að fyrri útileguferð klúbbsins í sumar.
Ferðin er hugsuð sem þriggja daga ferð og verður róið um voga, víkur og ýmsar smáeyjar á norðanverðu Snæfellsnesi, að ógleymdum Kolgrafa- og Grundarfirði. Þar sem auðveldustu hlutar ferðarinnar eru væntanlega tveir fyrstu dagarnir, þ.e. frá Hofsvogi að Bjarnarhöfn (1. dagur) og frá Bjarnarhöfn í Kolgrafafjörð (2. dagur), þykir ráð að hefja róðurinn laugardaginn 23. júlí, þannig að þeir sem eiga aðeins helgarfrí og treysta sér ef til vill ekki í róður úr Kolgrafafirði yfir í Grundarfjörð (25 km) gætu tekið þátt.
Fyrsta róðrardaginn, laugardaginn 29. júní, verður lagt af stað frá Hofstaðavogi kl. 11 fyrir hádegi. Þá er háflóð og því lítill bátaburður. Úr vognum verður haldið með landi og inn á víkur, kringum eyjar og hólma eftir því sem veður leyfir. Vilyrði fyrir tjaldstæði í Kumbaravogi við Landey höfum við frá Hildibrandi í Bjarnarhöfn. Þar er mögulegt að fá gott vatn og að komast á klósett. Tilvalið er að skoða hákarlasafnið þar í leiðinni, að ég tali nú ekki um að næla sér í vel verkaðan hákarl. Vegalengd um 10 km plús útúrdúrar.
Nánari staðsetning brottfararstaðar: Skammt innan við félagsheimilið Skjöld er spennistöð (skilti merkt "Tengivirki"). Þar er stuttur afleggari (100-200 m) sem liggur niður að sjó. Þar er alla vega á flóði hægt að róa bátunum út á voginn. Mæta a.m.k. 1 klst fyrir brottför.
Annar róðrardagur: Frá Bjarnarhöfn um kl. 11, nokkru fyrir háflóð. Haldið sem leið liggur fyrir Bjarnarhafnarfjall með viðkomu í Akureyjum og svo áfram að Berserkseyrarodda. Þá förum við að nálgast brúna yfir Kolgrafafjörð. Ef veður er gott má einnig dóla inn að Hraunsfirði. Ágætt er að tjalda í Hrafnkelsstaða- eða Eyrarbotni. Vegalengd um 15 km.
Þriðji róðrardagur: Frá náttstað um kl. 11, nokkru fyrir háflóð, þannig að við komumst undir brúna nálægt liggjandanum. Þá tekur við nokkuð langur róður fyrir Eyrarfjall og inn Grundarfjörðinn. Á þeirri leið er víða hægt að fara í land og skoða. Ágæt lending er í sandinum við Kverná, skammt innan við kaupstaðinn. Vegalengd um 25 km.
Athugið að þó ferðin sé með erfiðleikastig 2, er þriðja dagleiðin um 25 km.
Hafið endilega samband á korknum sem fyrst varðandi þátttöku, eða í síma 6986748.
Páll Reynisson