Nú er komið að ágústferðinni, föstudag 8. til sunnudags 10. ágúst, frá Stað í Reykhólasveit í Skáleyjar og Sviðnur. Þessi sjóbátaferð klúbbsins hefur notið vinsælda sl. ár, sem einskonar raðróður um Breiðafjarðareyjar. Róður sem er meðalerfiður og krefst meðalmikillar reynslu og hefur verið frábær útivist í góðum félagsskap. Áformað er að hittast á föstudagi 8. ágúst undir kvöld, um og upp úr kl. 18 við höfnina í Klauf neðan við Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit. Farið er neðan við bæinn og svo til vinstri ágætan veg að höfninni. Lagt af stað á flóðinu út í kvöldkyrrðina um kvöldið, ekki seinna en kl. 20 og róið á tveim klst. út í Skáleyjar, þar sem verður tjaldað. Næsta morgun er gengið um Skáleyjar og svo róið allan daginn suður Skáleyjalönd og Látralönd, etv. í Hvallátur og svo yfir Sviðnasund í Sviðnur, fáfarinn stað með talsverðu af minjum frá eldri tíma. Þar verður tjaldað og gist næstu nótt en farið svo þaðan norður að Skutlaskeri og í Suðurlönd við Stað og aftur í Klaufarhöfn. Ferð í sögufrægar eyjar, með tilheyrandi söguupprifjun, fugla- og landslagsskoðun, varðeldi og góðum kvöldstundum. Sundlaugin á Reykhólum bíður svo í lok róðurs
. Sjá nánar á Breiðafjarðarkorti:
www.breidafjordur.is/Breidafjardarnefnd/Verndarsvaedid/kort.htm
Sjókajaka og allt sem þeim fylgir þarf að hafa, þ.m.t. tjöld, svefnpoka, prímusa, nesti, nestisdrykki, skemmtiefni, brennikubba, sjónauka, landakort, GPS og myndavélar. Umsjón: Reynir Tómas, s.824 5444, reynir.steinunnhjainternet.is, og vinsamlega látið vita um þátttöku, m.a. til að geta gert landeigendum, sem hafa gefið góðfúsleg leyfi sín, viðvart og etv. má samnýta flutningsmöguleika. Nánari fregnir af veðri og öðrum undirbúningi verða hér á þessum korkþræði.
Post edited by: Reynir Tómas, at: 2008/08/01 20:20<br><br>Post edited by: Reynir Tómas, at: 2008/08/01 21:20