Ágætu félagar, takk fyrir góð orð og það var gott að allt gekk vel. Einir sex félagar voru komnir kvöldið áður og reru umhverfis Innri-Langey daginn áður, sjá flottar myndir Gunnars hér að ofan. Við lögðum upp 28 saman rétt um kl. 18 skv. áætlun nálægt háflóði í Kvennhólsvogi, í rigningu sem entist okkur með hléum og smá stoppi (þar sem sennilega heitir Höfn yzt á Dagverðarnesi), komumst svo í Purkey eftir um 2 klst róður. Þar var að fjara út og við urðum að vaða upp ál með svipuðum hætti og í Hrappsey fyrir 6 árum, slarka gegnum slatta af drullu og komum upp að ruslahaug Purkeyinga. Í rigningu og blautu kafagrasi var aðkoman ekki mjög aðlaðandi, en þreyttur hópurinn lét sig hafa það og tjaldaði, sumir á þúfum (færðu sig næsta dag), en aðrir sváfu vel með mjúkt kafagras undir rass. Rigning sem næstum var með slagveðurssniði hélst næstum til næsta morguns, en þá vaknaði fólkið almennt hresst og sólin var að byrja að skína. Sumir höfðu þurrkað plöggin í gömlu fjárhúsi og staðurinn var fallegur þegar góða veðrið var komið. Svo var haldið út Bæjarvoginn á ný að Klakkey, austur með henni og í Hrapppsey, þar sem Hafþór sýndi okkur anorthosít stein sem mun djúpberg af 20-30 km dýpi og finnst aðeins þarna og á tunglinu! Þar var pása í sólskini, logni og hita og allir fóru saman yfir röstina inn að Hagaey, þar sem við hittum Rifgirðingarbónda sem vildi forvitnast um ferðalanga. Eftir smá stím við hann urðu allir stimamjúkir og honum var bent á hættuna samfara því að vera án björgunarvestis í bát. Svo var siglt inn straumana að Tvíhyrningsleið, og örn flaug upp rétt hjá hópnum, síðan var lent norðaustast á Hagaey. Þar var góð pása þar sem hægt var að sitja hátt og horfa yfir eyjarnar og straumana, sérstaklega Tvíhyrninginn sem er með klettum sem brýtur á í miðju og þungum dyn og Breiðasundið skoðað ofan af háeyjunni, ásamt Kjóey og Norðurey. Við töldum okkur leggja af stað nálægt liggjandanum en þarna munar um einni og hálfri klst á Stykkishólmi og við rerum í allnokkrum straumi og iðuköstum niður í röstina og svo út hana. Einum ferðalanga hvoldi en náðist strax inn aftur og æfing, góð aðstoð og góður búnaður sagði til sín. Þetta var gaman í góðum hópnum og mikil reynsla og talsverð áreynsla líka. Hrúteyjarröstin frá s.l. sumri var léttvæg hjá þessu. Svo var haldið inn í Hrappsvog á Purkey og í kvöldgrillið og kvöldvöku með hefðbundnu atriði sögulegs fróðleiks frá undirrituðum. Sólarlagið var flott, matur og drykkur með besta móti og félagsskapurinn gat tæpast verið betri.
Næsta morgun var veðrið ekki síðra þegar árla dags var haldið út Bæjarvoginn aftur og nú komust menn siglandi eða rétt svo yfir álana út í rúmsjó. Farið var inn í Eiríksvog á Klakkeyjum og svo upp að Arney og inn með henni að austan að Fremri-Langey þar sem Gísli undanfari fann frábæran stað móti sólu fyrir langt hádegishlé. Svo var haldið heim í Kvennhólsvog (örn nr. 2 (eða 4) á leiðinni) og komið þangað um kl. 3 e.h., nálægt háflóði (2+ klst eftir Stykkishólm svo menn viti það næst). Allir í góðum gír. Sumir enduðu í Sælingsdalslaug. Sveinn Axel var róðrarstjóri og undirritaður fararstjóri. Alls voru farnir um 48 km. Öllum er þökkuð frábær samfylgd.