Keppni í sjókayakfærni
Keppni verður haldin í sjókayakfærni laugardaginn 01.september 2012. Markmið keppninnar er tvíþætt: Að hafa gaman saman og auka við færni okkar. Stefnt er að því að halda keppnina við bryggjuna í Bryggjuhverfinu í Reykjavík (beðið er eftir endanlegu leyfi). Aðstæður til að fylgjast með keppninni þar eru mjög góðar og eru allir félagsmenn hvattir til að taka þátt og/eða koma og fylgjast með.
Keppt verður í braut þar sem ræðari þarf að fara í gegnum hindranir og leysa tækniþrautir. Flest viðfangsefni eru í samræmi við góða róðrartækni og færni á sjókayak ásamt nokkurra „busl“ æfinga. Heildarlengd brautar er um 400 m og verða reitir afmarkaðir með baujum.