Fyrirhugað var að róa frá Hvítanesi í Hvalfirði yfir á Þyrilsnes, gera kaffistopp í Þyrilsey, róa yfir Brynjudalsvog og aftur í Hvítanesið. Áætluð vegalengd var um 12 km og ferðin var auglýst sérstaklega fyrir byrjendur og nýliða.
Á sjó fóru 19 bátar, yst á Hvítanesi úr lítilli vík vestan við stóru bryggjuna frá stríðsárunum. Guðni Páll var róðrarstjóra til aðstoðar, Þóra var fremsti ræðari og Klara aftast. Eftir lauslegt mat okkar á getu hópsins og með hliðsjón af NA 4-6 m/s mótvindi frá Þyrilsnesi ákváðum við Guðni Páll að fara ekki beint yfir á Þyrilsnes en róa fyrst inn í áttina að Fossá. Allt gekk þetta vel og hópurinn fór í land í þægilegri sandfjöru sunnan í Þyrilsnesi til að rétta úr sér.
Áætlunin var að róa austur með Þyrilsnesi og þvera yfir í eyjuna, en alltaf má búast við vindhviðum af Þyrli í þröngum Botnsvoginum. Við klettasnös einna mátti greina í fjarska að vindstrengur rótaði sjónum upp innan við Þyrilsey. Hópurinn þéttist þarna við klettinn, en þegar Þyrilsey varð sýnileg hertu sterkari ræðarar á sér og stefndu beint á eyjuna og hópurinn dreifðist langt frá landi.