Hofstaðavogur-Kolgrafafjörður-Grundarfjörður - 29. júní til 1. Júlí 2013
Frásögn í tveimur hlutum.
Fyrri hluti frá Reyni Tómasi:
Þetta var með eftirminnilegri ferðum á vegum klúbbssins og bestu þakkir til Páls Reynissonar fyrir að skipuleggja þessa góðu daga. Róðurinn hófst í frábæru veðri í Hofsstaðavogi (laxveiðiumsjónarmenn aðeins varir um sig en vinsamlegir og hjálplegir þegar til kom), þaðan var farið í Purkey, svo fram hjá arnarsetri og selaheimkynnum í Hafnareyjar þar sem lundinn réð ríkjum, inn í Kumbaravog og inn fyrir Landey í Bjarnarhöfn. Þar var hið besta tjaldstæði og vel tekið á móti okkur af Hildibrandi bónda þar. Hann hafði okkur í einkafræðslu um svæðið og safnið á virkilega góðu kvöldi.
Nóttin var kyrrlát og sérlega falleg með logni og minnti á að á næsta ári þyrfti að hafa ferð þar sem róið yrði að nóttu til en sofið á daginn! Bjart veður og sólríkt var næsta dag en kominn nokkur strekkingur af norðri þegar lagt var upp suður fyrir Guðnýjarstaðahólma og í nokkrum hliðarvindi út í Akureyjar. Þar tók Jóhann sumarbóndi á móti okkur af mikilli gestrisni, með kaffi og meðlæti á fallegum og skjólgóðum palli og við fengum ekki bara að hvílast og hressast heldur líka að skoða eyjuna og húsin sem að stofni til eru 100 ára gömul. Útsýnið á Bjarnarhafnarfjall, inn Kolgrafafjörðinn og austanverða Eyrarsveitina var frábært. Svo var róið á góðu lensi og undan allnokkrum vindi inn Kolgrafafjörð að Ámýrum, tekin pása og svo farið í talsvert miklum vindi (u.þ.b. 10 m/sek) inn fjörðinn. Róðurinn var strembinn og lent inn við Baulutanga í Kolgrafafirði til að ná landi. Við vorum 6 af 10 sem hættum þar, en fjórir knáir ræðarar hentu sér af stað í ölduna aftur og reru eins og fyrirhugað var inn í botn Kolgrafarfjarðar. Við hin sóttum bíla (8 km ganga fyrir tvo okkar) og snerum heim á leið en hinir héldu áfram túrnum.