Stefnt er að því að ræsa keppendur í Hvammsvíkurmaraþoni kl. 10 eins og áður hefur verið auglýst. Nánar á korkinum.
Stefnt er að því að ræsa keppendur í Hvammsvíkurmaraþoni kl. 10 eins og áður hefur verið auglýst. Nánar á korkinum.
Veðurspá er tvísýn á Kjalarnesinu og gæti frestað Hvammsvíkurmaraþoni. Fylgst verður með þróun næstu klukkutímana og lokaákvörðun birt á korkinum í síðasta lagi kl. 8 í fyrramálið. Ef af frestun verður keppt kl. 10 á sunnudagsmorgun.
Búið er að kaupa heilt lamb í kjötsúpuna og ná í útdráttarverðlaun frá 66°N (áttu að vera í boði í Reykjavíkurbikar en þær gleymdust þá), kaupa gos og samlokur. Einnig fá keppendur neyðarblys. Leitun er að annarri keppni þar sem svo vel er hugsað um keppendur. Minnt er á að keppnisnefnd gleymdi alveg að auglýsa keppnisgjald og því er þátttaka ókeypis að þessu sinni.
Ródeóið verður haldið á sama stað og sama tíma og áður hefur verið auglýst. Keppendur þar fá líka samlokur og gos.
Væntanlega hafa allar kayakkonur og -menn tekið laugardaginn 4. september frá því þá stendur mikið til hjá Kayakklúbbnum. Bæði verður keppt í Hvammsvíkurmaraþoni og í Haustródeói og þá ráðast úrslitin í æsispennandi keppni um Íslandsmeistaratitla.
Hvammvíkurmaraþonið er vissulega krefjandi enda er það sannkallað maraþon, 42,2 km (eða þar um bil). Þeir sem ekki vilja róa svo langt geta tekið þátt í liðakeppninni en þá skipta þrír keppendur með sér vegalengdinni. Karlar og konur geta skipað sama liðið. Þeir sem ekki finna sér liðsfélaga geta vafalaust fundið sér félaga á mótsdag. Boðið var upp á liðakeppni í fyrsta skipti í fyrra og reyndist það afar vel. Í lok keppni er boðið upp á kjötsúpu og keppendur fá hressingu í tveimur skyldustoppum sem eru á leiðinni. Ræst er í maraþoni kl. 10 en keppendur þurfa að mæta a.m.k. 30 mínútum fyrr. Róið er milli Geldinganess og Hvammvíkur í Hvalfirði. Rásmark er valið með tilliti til veðurs.
Haustródeóið verður haldið í Tungufljóti. Mæting er fyrir ofan brúna á fljótinu, rétt norðan við Geysi í Haukadal klukkan 12 og keppni hefst klukkan 13.00. Mikil tilþrif voru sýnd í Elliðaárródeói í vor og nú er að sjá hvort keppendur hafi bætt sig eitthvað í sumar eða hvort þeir séu kannski orðnir stirðir eftir allar grillsteikur sumarfrísins. Á bakkanum verður boðið upp á hressingu fyrir örþreytta íþróttagarpa. Hugsanlega einnig axlanudd.
Lokahófið verður haldið síðar í haust. Þar verða Íslandsmeistarar krýndir, grobbsögur sagðar og ódauðlegar kayakmyndir sýndar. Dagskrá nánar auglýst síðar.