Hálfmaraþon 2019
Mikill keppnisandi var hjá þátttakendum hálfmaraþonsins 2019 sem hófst rétt uppúr kl 10 þann 21. September.
Aðstæður voru eins og búast má við hér á landi smá austanvindur og frekar hlýtt miðað við að komið er að haustjafndægri. Lensið hjálpaði til við að ná góðum tíma á fyrsta legg að Gróttu en að sama skapi á móti á leggnum frá Gróttu og að Örfirisey.
Sjávarstaða var eins og hún gerist best þ.e. hásjávað og keppnin fór að mestu fram á liggjandanum.
Björgunarfélag Hafnarfjarðar var mætt á staðinn um hálfníuleytið og voru þeir með 8 manns og þrjá hraðskreiða og lipra báta til að gæta keppenda.
Haft var samband við Reykjavíkurhöfn og þeir vissu um ferðir keppenda og sáu til þess að umferð um sundin tók tillit til keppenda. Allavega sást hvalaskoðunarskip taka mikla sveigju til að fara aftur fyrir einn ræðarann.
Keppendur skiptust í tvo hópa og kom fyrri hópurinn á fleygiferð í Gróttu á sirka 40 mínútum og sá seinni á tæpum klukkutíma. Grótta var óárennileg í rauðabítið um morguninn en var byrjuð að slétta aðeins þegar fyrstu menn hálfhringuðu hana og fengu austanáttina í fangið og sauð að keipum alla leiðina að Örfirisey en slétt þaðan og í mark.