54. róðrarleggur : Djúpivogur - Hvalneskrókur
Eystra –Horn . Hvalnes
Nú þegar Guðni Páll leggur upp í sinn 54. róðrarlegg , um
kl. 09:30 , liggur leiðin frá Djúpavogi og allt til Hvalneskróks undir Eystra Horni .
Þetta er
38 km róðrarleið.
.
Þar sem nú fer að halla að leiðarlokum bæði hjá Guðna Páli og einnig hjá síðuskrifara , með þessa pistla – þá er sett hér inn enn einn fróðleiksmolinn sem landið geymir í pússi sínu ,svona til gamans
Eystra Horn og Hvalneskrókur
Þetta er merkisstaður Eystra Horn. Fjallið sjálft er að mestu úr gabbroi.
En það er fleira. Fundist hefur gull,silfur ,kvikasilfur og fleiri málmar í fjallinu.
Upphaflega hét fjallið Hvalneshorn- en Eystra Horn var þá nafnið á því fjalli sem nú er kallað Vestra Horn og er austan Hornafjarðar.
Horn á Hornströndum var þá kallað Vestra Horn.
Svona þvælast hin merkustu nöfn og kennileiti landshornanna á milli.
Úr
Hvalneskrók , sem við sjáum í krikanum á myndinni við sandinn og Hvalnesið, var mjög stutt að sækja á auðug fiskimið.
Norðlendingar fóru þangað á vertíðir á 15. öld og fóru þá þvert yfir hálendið og um Víðidal- sennilega gangandi.
Hvalneskrókur var löggilt siglingahöfn 1912 og viti þar reistur 1954.
Þannig að Guðna Páli kayakræðara eru allar sjóleiðir færar þarna um.
Tyrkir gengu á land á Hvalnesi 1627 ,en fólkið var svo heppið að vera í seli og slapp því með skrekkinn- en Tyrkir rændu eigum og spilltu búi...
Síðar kom í ljós að Tyrkir þessir voru sennilega Evrópubúar.... en Tyrkir skulu þeir heita...
En áfram með róðurinn.
Veður: Hægviðri með landinu en hvassara utar. Rigning í fyrstu en síðar þurrt
Sjólag : Gæti verið smá alda, 0. 7 m
Fréttir af róðrinum verða birtar hér eftir tilefnum:
Kl. 11:06 Nú þegar Guðni Páll hefur verið á róðri í um 1 1/2 klst hefur hann lagt að baki um 12 km leið frá Djúpavogi. Meðalhraðinn er um 7.1 km/klst síðasta klukkutímann, sem er mjög gott.
Aldan sem er, veitir honum lens.
KL 13:20 Guðni Páll er nú mótsvið við Kirkjusand hjá Þvottá skammt norðan við Þvottárskriður.
Hann gæti hafa fengið smá mótvind um sinn ,en það lægir þegar sunnar dregur.
Hann ætlar greinilega ekki að taka hvíldarstopp fyrr en í Hvarneskrók Hann á eftir um 14 km leið að Hvalneskrók.
Þar er nú 3 m/sek og 10 °C hiti
Kl 15:58 Guðni Páll lenti rétt í þessu í fjörunni í Hvalneskrók og allt í lagi. Heyrði aðeins í honum.
Meira um þetta síðar.
Kort af áætlaðri róðrarleið
Þetta styttist :
2 dagar eftir til Hornafjarðar
Og nú þegar Guðni Páll er að nálgast lokamark sitt ,að róa á kayak umhverfis Ísland, þá er minnt á það góða markmið með þessari þrekraun ,sem er að styrkja hjálparsamtökin "Samhjálp" með áheitum. Hvatt er til þess.
Slóð á styrktarsíðuna er:
www.aroundiceland2013.com/aacuteheitasoumlfnun.html