Hringróður um Ísland ,2013

19 júl 2013 14:30 #31 by Gíslihf
Það kom einkennilegur hlykkur á leiðina skv. SPOT merkjunum nú klukkan hálf tvö þegar Guðni Páll kom suður fyrir Fontinn.
Fróðlegt verður að fá skýringu á því hvernig leiðin lá.Það var fjara þarna um tvöleytið og líiklega ennþá bullandi suðurfall við Fontnn.

Vindur er stilltur en skv. korti Siglingastofnunar ætti að vera þarna alda 1 til 1,5 m sem skellur upp að klettunum sunnan frá, þar sem Guðni Páll er einmitt nú. Það gæti því verið brim neðan við Skála, beint neðan við kofana sem þar eru og gert lendingu erfiða.

Ef ekki er lendandir þar fyrir innan í vík sem heitir Árvík, þarf að halda áfram.
Inn að Eiðisvík, þar sem er sandfjara eru um 12 km í viðbót.

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

19 júl 2013 09:32 - 19 júl 2013 16:10 #32 by Sævar H.
45, róðrarleggur : Heiðarhöfn - Skálar á Langanesi
Skálar á Langanesi
Ljósmynd. Mats Wibe,www. Mats

Núna kl.08:40 þann 19. júlí lagði Guðni Páll upp frá Heiðarhöfn á Langanesi, í hina erfiðu sjóleið austur með norðanverðu Langanesi og fyrir straumröstina við Font sem er útvörður Langaness í austri.

Nú er Guðni Páll einn á róðri.

Eymundur Ingimundarson sem ætlaði að róa með honum féll á tíma þar sem veður og sjólag tafði þessa för um þrjá daga-hann varð að hætta við vegna þessa.

En Guðni Páll er ódeigur að leggja í þennan erfiða og 56 km langa róður með sjávarklettum og grýttri fjörunni sem varða alla þessa leið. , ásamt því að róa straumkastið fyrir Fontinn.

Guðni Páll á sennilega litla möguleika á landtöku á þessari löngu leið vegna stórgrýtis í fjörum og sjávarólgu við ströndina , en róðurinn tekur um 9-10 klst, áætlað.

Þegar þessi erfiði róðrarleggur er að baki er mikill sigur unninn hjá Guðna Páli við þetta mikla þrekvirki sem hann er að afreka á róðri sínum um Ísland.

Núna kl 09:50 hefur hann komist á gott skrið eða 7,1 km /klst sem vonandi helst sem lengst ;)

Veður : 2-4 m/sek af vestan. Hiti 15 °C ,gæti verið þoka og smá væta.

Sjólag : 0,6- 1.2 m ölduhæð

Fréttir af róðrinum birtast hér eftir tilefnum:
Kl. 10:50 Guðni Páll hefur nú lagt að baki >15 km af leið sinni fyrir Langanes. Hann er nú að róa með Skoruvíkurbjargi. Hann heldur um 7 km/klst meðalhraða ,sem er mjög gott.

Kl. 11:40 Nú hefur Guðni Páll verið á róðri í 3 klst frá því hann lagði upp frá Heiðarhöfn. Hann hefur lagt að baki 21 km. Hann þverar nú flóann milli Skoruvíkurbjargs og Fonts ásamt því að hann hefur þverað fyrir allar víkur fram til þessa á leið sinni. Þessi háttur styttir heildarleiðina úr 56 km í 45 km eða um 11 km. Það munar um minna. Ef heldur sem horfir gæti hann orðið við Skála fyrir kl 16:00 í dag ;) Veður er mjög gott til lofts og sjávar- vætu og þokunni að létta. Hiti um 14 °C
Frekari fréttir hér á síðunni verða síðar í dag-vegna kayakróðurs síðuskrifara :)

Kl. 16:00
Þar sem ég sjálfur var að koma í land úr 10 km kayakróðri ,er ég nú fyrst að skoða stöðuna frá því ég yfirgaf síðuna.
Guðni Páll er að öllum líkindum lentur við Skála, Spot merkið gefur það til kynna.
Þetta 3.3 km frávik suður af Fonti skýrist þegar samband næst við Guðna Pál.
Sjálfur held ég að hann hafi verið svo glaður að vera kominn fyrir Font að hann hafi leyft sér að fá sér vel að borða. Straumur er mikill þarna og rekstefnan er straumstefna , þannig að 3.3 km fyrir góðan snæðing að loknum sigri fyrir Font er bara gott.
Síðan tók hann hraustlega til árinnar og að Skálum-fullur orku.
Ekki næst símasamband við kappann þarna ,en líklegt er að hann verði sóttur og ekið til Þórshafnar til næturdvalar- þá fréttum við meira og fáum söguna-alla :)

Meira á sér þræði í kvöld

Við fylgjumst með okkar manni á róðrinum í dag.
Kort af áætlaðri róðrarleið

Skálar á Langanesi

Skálar er eyðiþorp á sunnanverðu Langanesi.
Þar var löggiltur verslunarstaður árið 1895 .
Þar var kominn vísir að kauptúni og talsvert útræði á fyrrihluta síðustu aldar.
Þar voru 117 manns til heimilis árið 1924 auk lausafólks sem var þar við róðra.
Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var.
Flestar minjar þessara verstöðva sem þarna voru eru nú horfnar utan nokkrir húsgrunnar og einn grafreitur.
Sunnan og vestan við Skála er Skálabjarg 130 m hátt og mikið fuglabjarg.
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 júl 2013 20:25 #33 by Icekayak
Góður punktur hjá þér Gísli.... oft er erfitt um vik, ef sannleikurinn skal hafður með "alla leið" í dómum á þeim búnaði sem manni hefur verið skaffaður í gegnum kostunnar aðila.
Nú hef ég síðustu ár verið tryggur fylgisveinn Seabird Designs, sem ég held að sé ekki sérstaklega vel kynnt framleiðsla á Íslandi, þrátt fyrir að vera með töluverða markaðshlutdeild víða um heim. Flestir þeirra kayakar eru hannaðir af Björn Thomasen, virkilega færum kayakhönnuði frá Svíþjóð. Bátar Seabird eru að miklum hluta framleiddir í Kína og þar virðist verklag vera æði misjafnt, miðað við það sem maður hefur séð og reynt.
Nú prufaði ég fyrir nokkrum vikum Inuk módel Seabird, sem er smíðað með leyfi hönnuðar frumhönnunnarinnar "a true copy". Þetta er bátur sem í gegnum tíðina hefur slegið mörg langsiglingarmetin á ýmsum vegalengdum á Bretlandseyjum. Ekkert var athugavert við smíðina á þessum bát sem ég prufaði. Fyrirfram hafði ég reiknað með hraðskreiðum, hæfileikaríkum og skemmtilegum bát, sem mig lengi hafði langað að prufa. En þvílík vonbrigði - hraðinn var langt undir væntingum og hegðun í öldum, vægast sagt einnig langt undir væntingum. Þetta er bátur sem ég myndir ALDREI velja mér hvorki til keppni eða langferða, engu að síður er Inuk marg reyndur á báðum sviðum og talin vel fær í flestan sjó.

Þetta er svona smá dæmi um það, að þó svo að sannleikurinn sé hafður með "alla leið" í "óhliðhollum" dómum á búnaði, frá styrktaraðilum þá getur útkoman virkað grunsamleg og gagnrýnisverð....

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 júl 2013 15:10 #34 by Gíslihf
Svona á meðan við erum að bíða eftir að þeir félagar leggi í næsta áfanga, væri gaman að rifjað væri upp eitthvað um búnað Guðna Páls og reyndar Eyma líka. Mun Guðni Páll skilja Eyma eftir úti á miðum :(

Flestir vita að Guðni Páll rær á Rockpool Taran bát, rúmgóðum og hraðskreiðum, stefnið er hvasst og lóðrétt og gæti grafið sig í öldudal ef báturinn er lestaður mikið að fram. Hann er svo "knúinn árfam" með Lendal ár, ég veit ekki hvaða týpu.

Hvað um bát og ár Eyma?

Guðni Páll er studdur af nokkrum aðilum sem framleiða búnað og vita að það er tekið eftir hvaða búnað slíkir menn treysta í krefjandi leiðangur. Eðlileg er þá þeim búnaði hrósað, en oflof verður flljótt grunsamlegt og við sem erum í þessu sporti spáum mikið í hvernig búnaður reynist og skoðum það eðlilega með gagnrýnum augum.

Kv. GHF.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

17 júl 2013 10:46 - 17 júl 2013 15:56 #35 by Sævar H.
Frá Langanesi
Mynd: KPS.photos

Núna þann 17. júlí bíða þeir félagar Guðni Páll og róðrafélagi hans , Eymundur Ingimundarson færis á að róa fyrir Langanesið.
Róðrarleggurinn frá Heiðarhöfn, þar sem þeir eru nú staddir , og að Skálum á suðurströnd Langanes, er um 56 km langur.
Lendingarskilyrði á allri þeirri leið eru engin, ef ekki er stilltur sjór.
Hamraberg og stórgrýttar fjörur einkenna leiðina.
Og að róa fyrir Font , austasta útvörð Langanes ,er um eina af mestu straumröstum við Ísland yfir að fara.
Allt þetta krefst góðra skilyrða til lofts og sjávar.
Útlit er fyrir að ekki verði ferðafært fyrr en á föstudag 19. júlí og þá jafnvel að nóttu.

Myndin hér að ofan er frá fremrihluta Langanes, en þar er mikil súlubyggð.
Myndin er dæmigerð fyrir alla leið þeirra félaga með strönd Langaness.
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

16 júl 2013 11:08 - 16 júl 2013 22:07 #36 by Sævar H.
44. róðrarleggur : Þórshöfn- Heiðarhöfn á Langanesi
Heiðarhöfn
Mynd. Sig.Hólm.( fengin að láni af netinu)

Núna í dag þann16.júlí leggur Guðni Páll upp frá Þórshöfn og rær yfir í Heiðarhöfn á Langanesi.
Þetta er um 19 km leið út með Langanesinu.
Vegna veðurskilyrða er ekki fært að róa fyrir Langanesið eins og er .
Þessvegna er Guðni Páll að þoka sér lengra út með Langanesinu , stuttan legg, til að nýta skamma og færa verðurkafla. Það styttir leiðina fyrir Langanesið- að róa fyrir Font -austastahlutann - en þar er mikil straumröst-Langanesröstin.
Það er síðasta stóra röstin sem Guðni Páll þarf að sigra á leið sinni um Ísland.
Hann verður því að sæta færis með veður og sjólag þegar hann fer fyrir Font og yfir í Skála, á sunnanverðu Langanesi.

Lendingar frá Heiðarhöfn og að Skálum eru fáar og allar grýttar.
Það er því mikilvægt að fá stilltan sjó þessa löngu og erfiðu leið.

Nú hefur góður kayakræðari komið til liðs við Guðna Pál þarna á Þórshöfn, Eymundur Ingimundarson ætlar að róa með Guðna Páli þarna næstu daga. Þetta er fagnaðarefni.

Fréttir af róðri þeirra félaga geta orðið síðbúnar hér vegna fjarveru síðuskrifara, um sinn, í dag :-)

Þeir félagar Guðni Páll og Eymundur róðrafélagi hans lentu á Heiðarhöfn á Langanesi um kl 14:10 eftir 19 km róður frá Þórshöfn

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Kort af áætlaðri róðrarleið
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

15 júl 2013 09:06 - 15 júl 2013 15:18 #37 by Sævar H.
43. róðrarleggur : Raufarhöfn- Þórshöfn

Þórshöfn
Ljósmynd. Mats Wibe ,www.Mats

Nú kl.um 05:30 lagði Guðni Páll upp frá Raufarhöfn á Melrakkasléttu og heldur suður Þistilfjörðinn allt til Þórhafnar á Langanesi.
Guðni Páll hefur verið veðurtepptur á Raufarhöfn frá því á laugardag 13., júlí þegar hann lenti þar eftir róður frá Rifstanga í bröttum sjó og vestan vindstreng.

Það var kærkomið stopp á Raufarhöfn til að yfirfara allan búnaðinn að lokinni vosbúð allt frá því hann lagði upp frá Húsavík-slagveður alla daga.
Og nú er hann endurnærður og ferðabúnaður í góðu lagi.

Róðrarleiðin frá Raufarhöfn til Þórshafnar er um 47 km löng en vegna sjólags verður hann að lenda á Þórshöfn þar sem ófært er að lenda við ferðaþjónustuna á Ytra-Lóni sem hefði verið betur í leið- en þar er slæm lending í brimi,grýtt fjara.
Þegar þetta er sett in kl .08:30 hefur Guðni Páll lagt að baki um 22 km leið- á um 7,1 km/klst meðalhraða.

Veður : Hæg breytileg átt 2-4 m/sek . Hiti um 7°C

Sjólag: Norðan hafalda , sennilega 1-1.5 m . ölduhæð og því lens

Fréttir af róðrinum verða birtar hér eftir tilefnum :
11:57
Nú á Guðni Páll eftir um 30 min. róður í höfn á Þórshöfn á Langanesi . Hann hefur þá lokið 47 km róðri frá Raufarhöfn þaðan sem hann lagði upp kl 5:30 í morgun . Hann hefur þá verið 7 klst á róðri og haldið uppi meðalhraðanum 6.7 km/klst.
Hann hefur verið í úfnum sjó inn Þistilfjörðinn en samt í hægum vindi.
Guðni Páll lendir á Þórshöfn um kl. 12:30

Að afloknum róðrinum

Ég var að heyra í róðrarkappanum okkar þar sem hann er staddur á Þórshöfn.
Hann fékk mjög veglegar möttökur þegar hann lenti þarna á Þórshöfn.
Björgunarsveit staðarins flutti bátinn með öllu í hús og Guðna Páli boðinn gisting og hann nýkominn úr sundi þegar ég heyrði í honum.
En róðurinn frá Raufarhöfn til Þórshafnar var mjög krefjandi.
Gömul hafalda af norðri 1,5- 2,5 m var erfið og ekki miklar lensaðstæður vegna hraða hennar og síðan djúpra dala. Hann tók smá matarpásu milli kletta skömmu áður en hann fór í þverun Þistilfjarðar í átt að Þórshöfn.
Þá byrjaði ballið.
Vindur skall á ,12 m/sek -beint á móti og þá var vindaldan kominn þvert á gömlu hafölduna þannig að úr varð suðupottur.
Á tímabili var Guðni Páll á því að snúa við og hætta þessari erfiðu þverun.
En þrautseigjan varð yfirsterkari og áfram var puðað móti veðrinu.
Hnúfubakur kom upp um 4-5 m. frá honum og veifaði sporðblöðkunni hátt á loft áður en hann kafaði í djúpið.
Hníðingar léku listir sína með hástökki og skemmtilegheitum allt í kring- það létti lífið.
En Guðni Páll var mjög hress og búinn að hvílast vel þegar ég heyrði í honum þarna á Þórshöfn á Langanesi.

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330

Kort af áætlaðri róðrarleið.
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

13 júl 2013 09:57 - 13 júl 2013 18:50 #38 by Sævar H.
42. róðrarleggur : Rifstangi (Sigurðarstaðir) - Raufarhöfn
Raufarhöfn
Ljósmynd, Mats Wibe, www.Mats

Núna um kl 11:00 leggur Guðni Páll upp frá Sigurðarstöðum sem er skammt vestan við Blikalón á Melrakkasléttu.
Vegns veðurs sem gekk þarna yfir í nótt og morgun frestaði Guðni Páll brottför . 10-13 m/sek og > 1 m ölduhæð var þarna í morgun. Nú er að byrja að læga og veðurútlit í lagi til róðurs. Hiti er um 8°C-bjart og þurrt

Nú liggur róðrarleiðin framhjá Blikalóni . Síðan mun hann róa fyrir nyrsta tanga Íslands , Rifstanga . Og áfram liggur leið austur með Sléttu –allt að Hraunhöfn með Hraunhafnartanga , þennan fyrrum nyrsta tanga Íslands, að talið var – en það eru aðeins 3 km frá Hraunhafnartanga að Norðurheimskautsbaugnum-ekki furða þó kuldi sæki að kappanum okkar þarna.

Og þegar Guðni Páll sveigir austur fyrir Hraunhafnartanga-þá hefst leið hans suður með Austurlandinu.
Og leið liggur allt suður til Raufarhafnar þar sem Guðni Páll lætur fyrirberast í nótt eftir 30 km róður – skverar af sitt dót-þurrkar sín föt eftir fjögurradaga rigningar róðra.

Og við þau tímamót að Guðni Páll heldur nú loks suður á bóginn er þessi síða dálítið bólgin af ýmsum fróðleik- svona smá hátíð.

Veður : Vestan 10 m/sek í fyrstu en lægir um hádegi í 5 m/sek

Sjólag : Vestan > 1 m. ölduhæð úr vestri og því lens

Fréttir verða birtar hér eftir tilefnum , en vel verður fylgst með Guðna Páli á þessum róðrarlegg :

Kl. 12:06 Guðni Páll er nú að róa fyrir Rifstanga. Hann verður að fara nokkuð djúpt út vegna skerjagarðs sem gengur norður frá Rifstanganum og brýtur á í vestanáttinni og því sjólagi sem fylgir. Veður er mjög að ganga niður og orðið skaplegt,9 m/sek af vestri . Einnig er ölduhæð að minnka . Nú er það Hraunhafnartangi næst að róa fyrir.

Kl. 12:55 Núna í þessu er Guðni Páll að róa fyrir Hraunhafnartanga. Allt gengur þetta vel hjá honum-þó vindur og sjór leiki ekki við hann. Þó er hvorutveggja að ganga niður,veðrið og sjólagið. En það er lens hjá honum og báturinn mjög góður á lensinu og Guðni Páll kayakræðari í háum gæðaflokki. Guðni Páll heldur stöðugum 7,4 km/klst róðrarhraða .
Við fylgjumst áfram með kappanum .
Nú liggur leið suður . ;)

Kl.13:55 Það er mikið skrið á Guðna Páli . Meðalhraðinn er 8,7 km/klst frá Hraunhafnartanga. Mikið lens. Hann ætti að verða í höfn á Raufarhöfn um kl 14: 35 ;)

Kl. 14:35 Guðni Páll er nú lentur í höfninni á Raufarhöfn eftir glæsilegan róður frá Sugurðarstaðavík á Melrakkasléttu. 30 km róður á 3 klst og 30 mín. Meðalhraði um 7.5 km/klst.

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Kort af áætlaðri róðrarleið

Og svona meðan við bíðum

Hraunhafnartangi: er næstnyrsti tangi landsins og liggur norðurheimskautsbaugurinn um 3 km norðan við hann.
Á tanganum er nyrsti viti á fastalandinu.

Lengi vel var Hraunhafnartangi talinn ganga nyrst út frá Íslandi en seinni tíma mælingar sýna að Rifstangi er norðar og hefur vinninginn sem nyrsti tangi Íslands.

Hraunhöfn á Sléttu
Hraunhöfn var þekkt höfn og skipalægi á söguöld og nöfn margra fornkappa eru tengd henni. Hraunhafnar er fyrst getið í Landnámu. Þar komu skip að utan
Dys Þorgeirs Hávarssonar
Mynd: ókunnur höfundur, fengin að lani af netinu

Þar var Þorgeir Hávarsson veginn að sögn Fóstbræðra sögu eftir að hafa vegið 14 manns og er dys hans sögð þar, grjóthrúga mikil sem sést langt að.
Á sjávarkambinum vestan við vitann má sjá dysjar þeirra 14 sem Þorgeir vó.
Heiðið brúðkaup fór fram við dysina fyrir nokkrum árum, eftir að allsherjargoði færði þar haugfórn.
Síðan hafa heiðnir menn hvaðanæva lagt leið sína að haugnum.

Utan þessa atburða á Söguöld kemur Hraunhöfn lítið við sögu.
Fyrr en á sautjándu öld .
Þá gekk vöðuselur þarna upp að ströndinni í miklu magni.
Vöðuselurinn var veiddur í nót.
Þetta voru mikil hlunnindi og nýtti Munkaþverárklaustur staðinn og byggði það bæ sem var nefndur Hraunhöfn.
Þessi atvinnuvegur varði árið um kring,
Þessar vöðuselveiðar voru síðan nýttar á Hraunhöfn næstu þrjár aldir en lögðust þá af.
Eftir það eru fáar sagnir um athafnir á Harunhöfn

Góða skemmun :P
Attachments:
The following user(s) said Thank You: msm

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

12 júl 2013 08:18 - 12 júl 2013 23:42 #39 by Sævar H.
41.róðrarleggur : Kópasker – Rifstangi á Melrakkasléttu

Blikalón á Melrakkasléttu
Ljósmynd, Mats Wibe, www. Mats

Núna um kl 9:00 þann 12.júlí leggur Guðni Páll upp frá Kópaskeri á Melrakkasléttu og liggur leið norður með Melrakkasléttu , fyrir Rauðanúp sem er vestari útvörður Melrakkasléttu í norðri og allt að Sigurðarstaðavík skammt vestan við Rifstanga.
Hann mun taka land við Sigurðarstaði þarna fyrir miðri víkinni og láta þar fyrirberast í nótt. Þetta er um 40 km róðrarleið.

Myndin hér að ofan er frá Blikalóni sem er á norðurhluta Melrakkasléttu og er milli Rauðanúps og Rifstanga.

Veður: Hæg NA átt í fyrstu en síðan N-NV átt

Sjólag Sjólaust


Fréttir verða birtar hér eftir tilefnum:

Kl. 10:40 Nú er Guðni Páll staddur útaf Nýhöfn á Melrakkasléttu og hefur lagt að baki um 14 km leið frá því hann lagði upp frá Kópaskeri kl 09.00 í morgun. Hann heldur upp 7.3 km/klst meðalhraða sem segir að veður og sjólag er honum hagstætt , ásamt því að kraftur er kominn í kappann .
En rigningin bylur á honum eins og í gær og ekki er hitastigið hátt, nú um hásumarið þarna, um 7 °C.
Þegar hann fer fyrir Rauðanúp og stefnir í austur þá fær hann nokkurn mótvind úr austri-en þá er stutt í Sigurðarstaðavík -sem er lokamark í dag.

Kl. 13:20
Guðna Páli miðar róðurinn vel. Hann verður í Sigurðarstaðavík um kl 14:30 . Veður hjá honum er logn og sjólaust-hiti 6°C
En það rignir mjög á kappann.... :dry:

Kl 14:30 lenti Guðni Páll við bæinn Sigurðarstaði í Sigurðarstaðavík skammt vestan við Rifstanga á Melrakkasléttu að loknum tæpra 40 km róðri frá Kópaskeri þaðan sem hann lagði upp kl 09:00 í morgun .Hann hefur verið á róðri í 5.5 klst yfirleitt í mikilli rigningu og kulda- en hægu veðri til lofts og sjávar. ;) Til Lukku með þetta Guðni Páll.

Kl. 18:20
Ég var að heyra í kappanum okkar honum Guðna Páli. Það sem ég setti inn kl 10:20 var í raun og veru allt rétt-Guðni Páll staðfesti það: Veðrið,sjólagið ,rigningin og ekki síst , gamli krafturinn er kominn til baka.
Og hljóðið í okkar manni var mjög gott og bjartsýni með framhaldið :)
Hann er nú staddur skammt vestan við Blikalón þar sem myndin hér að ofan sýnir.
Síðan kemur nýr dagur á morgun með nýrri róðraráætlun ;)

Kort af róinn leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Kort af áætlaðri róðrarleið
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

11 júl 2013 11:27 - 11 júl 2013 15:53 #40 by Sævar H.
41. róðrarleggur:

Fjallhöfn í Öxarfirði - Nýhöfn á Melrakkasléttu

Guðni Páll lagði upp frá Fjallhöfn í Öxarfirði kl um 9:00 í morgun og er áætluð róðrarleið yfir Öxarfjörðinn og norður með Melrakkasléttu.
Þar sem pistlaskrifari hefur ekki verið í símasambandi við Guðna Pál í 2 daga vegna fjarveru uppi á öræfum og utan tæknitengingar við umheiminn- þá er eftirfarandi byggt á því plani sem Guðni upplýsti um fyrir þessa fjarveru mína.

Nú er Guðni Páll kominn í þann róðrarrythma að fara 40-45 km leið á dag.
Í gær voru það 40 km .
Þannig að sú leið sem sýnd er á meðf. korti er miðuð við þessa áætlun.
Það er því áætlað að Guðni Páll staðnæmist ekki á Kópaskeri ,heldur fari lengra norður eða allt í Nýhöfn og láti fyrirberast þar í nótt- það kemur í ljós í dag

Hann er nú langt kominn með að þvera Öxarfjörðinn þegar þetta er sett inn og leið fer að liggja norður með Melrakkasléttu.

Veður er mjög gott - logn til sjávar og loftsins.

Fréttir verða settar hér inn eftir tilefnum :

Kl. um 13:00
Guðni Páll hefur nú lagt að baki um 26 km leið frá því hann yfirgaf Fjallhöfn.
Hann réri þétt með sandinum sem markar suðurströnd Öxafjarðar - en þessi mikli sandur er til kominn vegna framburðar Jökulsár á Fjöllum.
Guðni Páll þveraði Jökulsá á Fjöllum alveg í straumkasti óssins og hefur sjálfsagt haft gaman af þeirri tilbreytingu í annars lognkyrrum sjónum á þessari leið.
Nú hefur hann tekið land við Buðlungahöfn sem er þarna syðst og austast í kverkinni að loknum sandinum og leiðin fer að liggja norður með Melrakkasléttunni.

Buðlungahöfn
Talsvert var róið til fiskjar, frá Buðlungahöfn
norðan Brunnáróss- á fyrri öldum. Þar var líka
löggilt höfn og ennþá sjást merki um vöruhús
kaupmannsins á Húsavík. Öll lendingaraðstaða hefur
mjög spillst vegna sandframburðar Jökulsár á Fjöllum.

En við fylgjumst áfram spennt með framvindu róðursins hjá Guðna Páli. ;)
Mikil rigning gengur yfir kappann þessa stundina. En enginn er verri þó hann vökni :)

Kl. 15:30 Ég var að heyra í Guðna Páli nú rétt í þessu þar sem hann er nú staddur á Kópaskeri. Róðurinn reyndi á með hefðbundnum hætti . Var orðinn blautur og kaldur. Hann lætur staðarnumið í dag þarna á Kópaskeri og lætur þar fyrirberast í nótt. Róðurinn í dag reyndist 35 km leið og spannaði 6 klst .
Frekari róðraáætlanir verða birtar seint í kvöld.

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330

Ps. Á kayaksíðunni okkar er aukin fjöldi heimsókna á ritaðar heimildir um fyrri kayakróðra um Ísland- einkum róðurinn hans Gísla H.Friðgeirssonar - enda leið Guðna Páls keimlík hvað róðrarleið varðar.
Það er vel ,enda einn meginn tilgangur þessara daglegu pistla um svona afreks kayakróðra, sem hringróður um Ísland er, -söfnun samtímaheimilda um afreksverkin, fyrir sögu kayakíþróttarinnar á Íslandi :P
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

10 júl 2013 08:13 - 11 júl 2013 10:45 #41 by Sævar H.
40. róðrarleggur: Húsavík á Skjálfanda- Fjallhöfn í Öxarfirði
Kort af áætlaðri róðrarleið

Nú þegar Guðni Páll leggur upp frá Húsavík á Skjálfanda kl. 09:00, liggur leið hans um Tjörnesið og allt að Fjallhöfn í Öxarfirði –alls um 40 km sjóleið.

Tjörnesið er um 14 km breitt nes sem aðskilur Skjálfanda frá Öxarfirði.
Fjallhöfn er syðst og vestast í Öxarfirði, gamall verbúðastaður sem einkum nýttist við selveiðar að vori.
Eitt vorið,fyrr á öldum, veiddust þarna yfir 300 vöðuselir.

Og þegar í Öxarfjörðinn er komið, svona innarlega ,fer að gæta áhrifa frá einu af stórfallvötnum landsins, sjálfri Jökulsá á Fjöllum.

Gera má ráðfyrir að Guðni Páll fái nokkurn kalda með sér sér norður með Tjörnesinu en síðan nokkurn lens inn Öxarfjörðinn allt að Fjallhöfn

Guðni Páll ráðgerir að láta fyrirberast í Fjallhöfn í nótt.

Veður: Hæg sunnan átt í fyrstu síðan hæg NA síðdegis.

Sjólag: Sjólaust

Fréttir af framgangi róðurs bitast hér eftir tilefnum:

12:14
Guðni Páll hefur nú lagt að baki rúmlega helming af áætluðum róðrií dag. Hann er staddur skammt frá Tjörnestá og er í pásu. Róðurinn hefu gengið mjög vel hjá honum -um 7 km /klst.
Nú þegar hann sveigir inná Öxarfjörðinn verður kulið aftantil á hlið og því lens.

kl 15:26 lenti Guðni Páll í Fjallhöfn í Öxarfirði eftir 40 km róður frá Húsavík á Skjálfanda og hafði verið 6.5 klst á leiðinni og tekið sér hálftíma stopp til að nærast og hvílast. Meðalhraðinn hefur því verið rúmir 7 km/klst.

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 júl 2013 19:14 - 09 júl 2013 23:22 #42 by Sævar H.
Að loknum 39. róðrarlegg á róðri um Ísland:

Guðni Páll og róðrafélagi hans undanfarna róðra, Þóra Atladóttir, lögðu upp frá Þorgeirsfirði í Fjörðum um kl 08:00 í morgun. Veður var gott framan af en versnaði þegar á róðurinn leið.

Stefnan var sett á að róa austur og suður með ströndinni með lokamarkið á Húsavík á Skjálfanda.

Eitt hvíldarstopp var tekið við norðurenda Naustavíkur gengt Flatey á Skjálfanda.

Þegar haldið var af stað aftur var kominn norðanstrengur með verulegri haföldu á hlið .
Það sjólag hélst allt til Húsavíkur.

Nokkrar hrefnur heilsuðu upp á þau og syntu m.a undir kayakana þeirra- en allt í friði.
Hnúfubakar sáust blása utar á Skjálfanda

Það varð því talsverður átakaróður að róa þessa 44 km sem leiðin spannaði.
Guðni Páll er kominn á það róðrarálag að 40-45 km/ dag gefi bestan árangur - þegar róið er dag eftir dag við svona breytileg skilyrði.

Nú verður Guðni Páll aftur einfari á sjó og væntanlega allt til Hafnar í Hornafirði.

Þóra Atladóttir sem hefur verið Guðna Páli svo ölugur róðrarfélagi að undanförnu - er búin með sitt frí og hverfur til sins heima. Hennar félagsskapur var Guðna Páli mikilvægur allt frá Hrauni á Skaga til Húsavíkur
Guðni Páll og Þóra Atladóttir lentu í höfninni á Húsavík um kl 15:20 í dag eftir 7, 5 klst róður.
Kort af róðrarleið í dag


Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...13266757968394245330
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

09 júl 2013 08:36 - 09 júl 2013 08:39 #43 by Sævar H.
39. róðrarleggur : Þorgeirsfjörður í Fjörðum- Húsavík á Skjálfanda
Húsavík – Kinnarfjöll í baksýn
Mynd: oh. Húsavík (fengin að láni af netinu)

Um kl 08:00 lögðu þau Guðni Páll og Þóra Atladóttir róðrafélagi hans, upp frá Þorgeirsfirði í Fjörðum.
Nú liggur róðrarleiðin fyrir ströndum útaf Þorgeirshöfða og í Hvalvatnsfjörð.

Þaðan með Skriðum um Flateyjarsund með Flatey á Skjálfanda á bakborða . ‚ovíst er hvort þau taki land í Flatey sem er þá nokkur krókur á leið.-það kemur í ljós.

Því næst róa þau um Nausteyrarvík útaf Flateyjardal og við tekur ströndin útaf Hágöngum. Og síðan suður með ströndinni allt til Náttfaravíkur .
Hvenær þau taka land á þessari mögnuðu ferð um Fjörður verður bara að koma í ljós.

Skjálfandi er mikill viðverustaður stórhvala og kannski heilsa þeir kayakræðurum með sporði eða ugga.

Frá Náttfaravík þvera þau síðan Skjálfanda yfir til Húsavíkur.
Þar láta þau fyrirberast í nótt.

Veður: Hæg sunnan átt

Sjólag: 0.4 m ölduhæð eða logn og sléttur sjór

Fréttir verða birtar hér eftir tilefnum :


Kort af áætlaðri róðrarleið
Attachments:

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 júl 2013 23:59 - 08 júl 2013 21:57 #44 by Sævar H.
38. róðrarleggur : Siglufjörður- Þorgeirsfjörður í Fjörðum
Frá Þorgeirsfirði
Mynd : Fengin að láni af netinu
Um kl 08:00 þann 8. júlí lagði Guðni Páll ,ásamt róðrafélaga sínum, Þóru Atladóttur , upp frá Siglufirði.

Og nú er stefnt á róður frá Siglufirði og fyrir Siglunesið – því næst að þvera fyrir Héðinsfjörð allt að Hvanndalabjörgum í vestanverðum Eyjafirði.
Þar munu þau taka hvíldarstopp .

Þá mun leiðin liggja þvert yfir Eyjafjörð , frá Hvanndalabjörgum og norðarlega á Látraströnd –mót Gjögurfjalli á austanverðum Eyjafirði
Og leið mun síðan liggja norður og austur fyrir Gjögurtá og inn í botn á Þorgeirsfirði.
Þar er áætlað að láta fyrirberast yfir nótt. Þetta er alls um 45 km róður.
Næstu dagar líta mjög vel út til áfrahaldandi róðra.

Veður: Hægur andvari frá austri, síðan norðri og vestan kul undir kvöldið.

Sjólag: Sjólítið

Hér verða birtar fréttir eftir því sem tilefni gefst:

Kl. 11:26 Þau Guðni Páll og Þóra róðrafélagi hans hafa nú tekið land undir Hvanndalabjörgum utan Sýrdals.
Róðurinn hefur gengið mjög vel hjá þeim. Veður gott, logn og um 0.4 m ölduhæð sem er sjólaust.
Meðalhraði frá Siglufirði hefur verið um 6.3 km /klst og hafa lagt að baki um 19 km. :)
Og nú þegar þau leggja upp að nýju þá er það þverun Eyjafjarðar sem liggur fyrir. ;)

Kl. 16:30 Guðni Páll var að hringja og segja fréttir af ferðinni.
Þau eru núna lent í Þorgeirsfirði eftir 7 klst róður frá Siglufirði að frádregnu 1/2 klst stoppi undir Hvanndalabjörgum vestan Eyjafjarðar.
Þau hafa fengið leyfi til að gista í húsi ferðafélagsins Fjörðungar á Grenivík og eru búin að kveikja upp í olíuofni til að fá í sig hita og þurrka fatnaðinn ,en mikil rigning var meginn hluta róðursins frá Siglufirði og hitastigið ekki hátt 5-7 °C .
Það var stillt í sjóinn alla leiðina, en vindur var á móti þeim yfir Eyjafjörðinn og allt í Þorgeirsfjörð-alveg öfugt við það sem veðurspá og veðurupplýsingar segja.
Svona breytir hátt fjalllendi góðum meðvindi á korti í mótvind í raun.

Þau Guðni Páll og Þóra eru alsæl með að hafa fengið að sjá þetta magnaða umhverfi á leið þeirra.
Einkum fannst þeim Hvanndalabjörgin, vestan fjarðar ,alveg mögnuð .
Og nú eru þau komin í útivistarparadísina í Fjörðum og eiga daginn í dag og á morgun á þeim slóðum.
Aðspurð um snjóalög og náttúrufar , segja þau allt autt og gróið á láglendi en talsverður snjór ennþá efst í fjöllum.

Þau ,Guðni Páll og Þóra Atladóttir senda kærar kveðjur til allra.

Á leið þeirra yfir Eyjafjörðinn mættu þau tveimur skútum á innleið og sem þveruðu því stefnu þeirra, stutt frá. Önnur skútan var frönsk en hin ensk.
Siglingamenn á þeirri ensku veifuðu til þeirra ,en enginn var sjánlegur ofan dekks á þeirri frönsku , en hún sigldi á vélarafli og greinilega á sjálfstýringu.
Ekki gott ef þoka hefði hindrað sýn hjá kayakfólkinu.

Kort af róinni leið um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424...38073399053505?hl=is
Áætluð róðrarleið

Og á meðan við bíðum:
Fjörður , fjallaskaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda
Allur fjallaskaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda er í eyði , svona eins og Hornstrandir og með sama hætti vinsælt göngusvæði.
Það er sumarfagurt í Fjörðum,eins og þessi landshluti er almennt kallaður
En á vetum eru snjóþyngsli mikil.- og vetrarhörkur.
Og fyrrum var þetta eitt erfiðasta búsvæði landsins og einangrað.
Hér eru lýsingar tveggja frægra íbúa á þessu svæði :

Hún Látra-Björg ,fædd 1716, sem ól allan sinn aldur á Látraströnd á Fjörðum
kveður svo um byggðalagið :

" Fagurt er á Fjörðum
þá Frelsarinn gefur veðrið blítt
heyið grænt í görðum
grös og heilagfiski nýtt
en þá vetur að oss er að sveigja,
veit ég enga verri sveit
um veraldrarreit
menn og dýr þá deyja."

Og rithöfundurinn Theódor Friðriksson sem ólst upp á Gili innsta bæ á Fjörðum segir svo frá :

"Að þegar hann kom heim að Gili eitt sinn , gangandi úr sjóferð og á skíðum utan frá Eyri- þá fann Theódór hvergi bæinn sinn í fyrstu- en þá stóð hann ofan á bænum - sem þá hafði fennt á kaf..."

Sannalega erfitt líf þarna yfir vetratímann ,en sumrin bættu það upp.
Nú er öll þessi byggð í eyði

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

07 júl 2013 23:14 #45 by Gummi
Ég var að þvælast þarna um svæðið fyrir og um helgina. Það er ekki búið að opna vegina niður í Fjörður og Flateyardal en vegagerðin vinnur að opnun niður í Flateyjardal. Vegurinn niður að Björgum við ósa Skjálfandafljóts er fínn svo þau verða á eigin vegum þar til þangað er komið. En það er kuldalegt um að litast til fjalla á svæðinu og alveg ljóst að mikið snjóaði á svæðinu í vetur.

Kv. Gummi J.

Please Innskráning or Create an account to join the conversation.

Powered by Kunena Forum