5. róðrarleggur á hringróðri um Ísland
Vík í Mýrdal
Ljósmynd Mats Wibe,
www.mats, með leyfi höfundar
Nú um kl 09:00 þ. 9.maí mun Guðni Páll , kayakræðari, ýta á flot frá sandinum neðan Alviðruhamarsvita og halda áleiðis til Vík í Mýrdal sem er um 40 km róður.
Nú verður ekki hægt að fylgjast með Guðna Páli um Spot tækið góða- það fór fyrir borð í brotsjónum mikla sem hann fékk á sig í gær.
En hann er með neyðarsendi, talstöð og GSM síma..
Gísli H. Friðgeirsson, fv hringfari á kayak er staddur þarna fyrir austan og mun fylgjast með Guðna Páli úr landi og taka á móti honum í Vík í Mýrdal.
Veður kl. 8 í morgun við Skarðsfjöruvita: NV 2 m/sek og hiti 5,7 °C . En klárlega brim við ströndina.
Kl 12:20
Ég var að fá símtal frá Gísla H.F. :
Guðni Páll ýtti frá sandinum útfrá einni kvísl Kúðafjlóts, sem er skammt SA við Alviðruhamarsvita, kl 10:30
Og komið er nýtt stýri á bátinn. Guðni var svo forsjáll að hafa eitt varastýri með.
Lítilshátta brimalda var við ströndina en mjög gott þegar yfir þá öldu var komið.
Hann ætti að vera búinn að róa um 15 km þegar þetta er sett inn og á því eftir um 25 km í Vík í Mýrdal.
Þar ætti hann verða um kl. 15:30 .
Guðni Páll er hress og kátur og lætur þrekvirkið í gær bara efla sig.
Hann er smá stirður í bakinu og lítilsháttar marinn eftir brotsjóinn.
Sannalega sjóvíkingur, Guðni Páll
Kl 16:00
Guðni Páll lenti í fjörunni í Vík í Mýrdal nú kl 15:45 og í ágætis veðri en smá vætu. Guðni er hress, en tognunin í bakinu er smá að angra hann . Síðan er það þegar menn með "skrifstofuhendur" fara að stunda sjóróðra dögum saman - þá er húðin í lófunum þunn og viðkvæm. Það myndast blöðrur.
Það vandamál angrar Guðna nú um stundir . Smá saman safnast sigg í lófana og hann fær alvöru sægarpahendur
En allt horfir þetta til betri vegar með tímanum.
Hann hefur hug á að halda áfram í fyrramálið - en meira um það síðar í kvöld
Og Palli Gests, formaðurinn okkar, er á leið austur í Vík í Mýrdal með nýtt Spot tæki fyrir okkur og Guðna Pál. Þá geta allir tekið gleði sína á ný.
Meira síðar
Brotsjór undan Meðallandi
Þegar Guðni Páll lagði upp frá sandfjörunni milli Gígjukvíslar og Núpsvatna í gær þann 8. maí var logn og brimlaust í fjörunni.
Og það ástand hélst lengi vel á róðrinum .
Um það bil sem hann nálgast útstreymi Eldvatna fer að koma ylgja á hafið og fer síðan mjög vaxandi .
Þegar skammt er í Skarðsfjöruvita er kominn haugasjór með vindstreng.
Þarna myndast miklir straumar við ströndina .
Og áhrif hinna miklu jökulfljóta og stór áa sem þarna renna í hafið með allri ströndinni- Skeiðará, Gigjukvísl, Núpsvötn,Hverfisfljót, Skaftá, Eldvötn og Kúðafljótið, hafa þarna mikil áhrif á strauma og þar með sjólag við ströndina.
Guðni heldur sig um 1 km frá ströndinni á róðri sínum.
Og það er síðan þegar stutt er eftir að Skarðsfjöruvita að hann kemur auga á mjög rísandi straumölduhnút til hliðar við sig þarna í öldukaðrakinu
Þetta ferlíki nær hæð á við 3ja hæða hús – og hvolfist yfir hann- heljar brotsjór.
Þrátt fyrir þá skelfingu sem grípur um sig við svona náttúruhamfarir heldur Guðni Páll fullri stjórn .
Grípur fast um árina – til að missa ekki tök á sjálfum lífsþræðinum sem árin er við þessar aðstæður,
Brotið kýlir hann aftur á dekkið og bátnum hvolfir í hafrótinu. Hann nær að velta bátnum upp á ný á réttan kjöl – brotið er gengið yfir. En Spot tækinu og GPS tækinu skolaði fyrir borð .
Sjór komst í svokallaða daglest sem er lítið hólf fyrir dagsnesti á róðri- en aðal lestarlúgurnar stóðust átökin þannig að enginn sjór komst í bátinn .
En stýrið aftan á bátnum fór í mél og er ónýtt.
Báturinn stóð sig með prýði.
Þrátt fyrir þetta áfall ákveður Guðni Páll að halda áfram allt að Alviðruhamarsvita og freista lendingar þar – þar er gott vegasamband og gott hús við vitann.
Hann nær sambandi með GSM símanum við Gísla H. Friðgeirsson, í bakvaraðsveit róðursins- sem gerir sér ljóst að Guðni Páll gæti verið í verulegum vanda.
Hann lætur Landsbjörgu og yfirvöld vita um stöðuna .
Það er þegar í stað sett í gang viðbragðaplan allt frá Hornafirði til Vík í Mýrdal. .
Spotttækið rekur á land við Skarðsfjöruvita og fer að senda staðarákvaraðinir- haldið er í fyrstu að Guðni Páll sé lentur þar- en ekki var á þeirri stundu vitað að tækið hafði farið af bátnum.
Þetta olli villustaðsetningu Guðna Páls.
Það er ekki fyrr en hann tekur land við Alviðruhamarsvita um kl 18:15 og kemur boðum um talstöð að nákvæm staðsetning fæst.
Guðni Páll er heill á húfi eftir þessa miklu þrekraun.
Þjálfun hans við mjög erfiðar aðstæður skipti sköpum.
Athugasemd: Líklegt má telja að þessi risaalda sem myndaðist þarna hafi orðið til vegna neðansjávarsandrifs . Það er þekkt þarna að neðansjávarsandrif verði til 500-1000 m frá landi.
Kort á róðrarleiðinni
plus.google.com/photos/11326675796839424.../5875902180349768002
Kort af stöðu hringróðurs um Ísland
plus.google.com/photos/11326675796839424.../5872738073399053505