Breyting á keppnisreglum
Nú er a.m.k. eitt brimskíði er komið til landsins og hugsanlega eru fleiri á leiðinni á næstu árum. Því þurfti keppnisnefnd Kayakklúbbsins að ákveða hvernig og hvort aðlaga ætti keppnisreglur að þessum nýju fararskjótum. Gæta verður sanngirni gagnvart þeim sem eiga ekki eins hraðskreið sjóför og jafnframt er mikilvægt að koma til móts við þá sem hafa áhuga á keppnisróðri. Hafa verður í huga að klúbburinn er vettvangur fyrir alla kayakmenn.
Keppnisnefnd ákvað á fundi í mars að hafa samband við þá sem halda ASKR (Arctic Sea Kayak Race) í Noregi til að fá fréttir af því hvaða augum þeir líta þessi mál enda mun hafa verið litið til ASKR-keppninnar þegar núverandi keppnisreglur voru smíðaðar.
Breytingin sem keppnisnefnd ákvað að gera var að skipta bátum í tvo flokka; keppnisbáta og brimskíði annars vegar og ferðabáta hins vegar. Slíkar skiptingar verða seint óumdeildar en með þolinmæði og sanngirni ætti að vera hægt að ná sátt um hana. Vonandi verður breytingin til að fjölga keppendum.