16.júní 2009
15. róðrarleggur : Súgandafjörður- Bolungavík
Um hádegisbil þann 15.júní leggja þeir róðrarfélagar Gísli og Ágúst Ingi upp í 15. róðrarlegg Gísla kayakræðara á hringróðri um Ísland.
Veður er mjög gott og stilltur sjór.
Leiðin liggur með norðurströnd Súgandafjarðar og fyrir það svipmikla fjall,Gölt. Þegar fyrir Gölt er komið er stutt í Keflavík , en þar stendur Galtarviti sæfarendum til leiðsagnar.
Mjög fallegt er í Keflavík.
Óskar Aðalsteinn , rithöfundur var vitavörður á Galtarvita árin 1953 til 1977 . :
“Galtarviti á Vestfjörðum stendur í Keflavík sem er vík út af Súgandafirði. Víkin snýr á mót opnu hafi og eru siglingar fiskiskipa tíðar fram hjá vitanum. Aðeins er hægt að komast til Keflavíkur gangandi, á snjósleða eða sjóleiðina þegar veður er gott.
Ég verð að gera þá játningu, að það sem ég vildi helst segja, á ég engin orð yfir. Ég get ekki leitt þig inn í heim útnesjamannsins, svo að neinu nemi, það er á engra færi.
Enginn lýsir þögninni, sem umlykur Galtarvita, eitt afskekktasta byggða ból landsins.
Hér er sú þögn, sem aldrei verður í fjölmenni, það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem helst má líkja við bylgjuhreyfingu túngresisins á lognkyrrum sumardegi.” segir Óskar Aðalsteinn , rithöfundur og fv. vitavörður á Galtarvita.
Róðrarfélagarnir Gísli og Ágúst Ingi hittast á Vestfjörðum
(mynd: Halldór Sveinbjörnsson/Ísafirði)
Og frá Keflavík og Galtarvita liggur leið þeirra róðrarfélaga Gísla og Ágústs Inga fyrir fjallnúpinn Öskubak og Skálavíkin blasir við ,sem liggur þarna milli útvarðanna Deildar í norðri og Öskubaks í suðri.
Skálavík var fyrrum vestasta byggð í N.Ísafjarðarsýslu.
Eftir að hafa þverað fyrir Skálavík liggur leiðin fyrir Deild og er þá komið í Ísafjarðardjúp.
Nú er tekið land við neyðarskýlið í Krossavík utan Stigahlíðar .
Og eftir hvíldarstoppð er lokaáfanginn framundan – róðurinn inní Bolungavík.
Og um kl 18 þann 15. Júní 2009 lýkur 15. legg kayakróðurs Gísla kayakræðara á leið sinni umhverfis Ísland.
Róðrarvegalengd dagsins varð um 26 km.
Nú hefur Gísli H. Friðgeirsson lokið við 2. kafla leiðarinnar umhverfis Ísland :
Stykkishólmur- Bolungavík.
Og alls eru 526 km að baki frá því kayakróðurinn hófst frá Geldinganesinu í Reykjavík þann 1. júní 2009....
Væntanlega mun Ágúst Ingi fjalla nánar um þennan samróður hans með Gísla kayakræðara... við bíðum þess.
Og nú er einstakt tækifæri fyrir kayakræðara að róa með Gísla fyrir Hornstrandir... notið tækifærið...<br><br>Post edited by: Sævar H., at: 2009/06/17 12:15