28.júlí 2009
40. róðrarleggur Gísla kayakræðara hafinn: Dyrhólaey- Eyjafjallasandur við Miðbæli
Núna kl. 18.30 eru þeir róðrarfélagar Gísli og
Örlygur Steinn að leggja upp í 40. róðrarlegg Gísla
kayakræðara.
Þeir leggja upp vestan Dyrhólaeyjar en taka samt
róðrarsveiflu gegnum dyrnar frægu sem Dyrhólaey
dregur nafn sitt af.
Veður er þokkalegt og brimið orðið viðráðanlegt.
Sjór er að ganga niður og það er lens. Fyrst er
róðrinum heitið inní Holtsós sem er um 41 km róður
frá Dyrhólaey.
Þar taka þeir félagar hvíldarpásu og heimsækja
væntanlega Karl og Önnu á Efstu Grund- en þar á Gísli
heimboð.
Síðan halda þeir för áfram og væntanlega verður látið
fyrirberast í Vestmannaeyjum í nótt.(ekki staðf.)
Frá Holtsós til Vestmannaeyja eru um 23 km.
Þannig að róðrarvegalengd þeirra félaga gæti orðið um
64 km á þessum 40. róðralegg Gísla kayakræðara á
kayak umhverfis Ísland...
Nú er sumri tekið að halla og miðnæturbirtan horfin.
Þeir félagar munu því eiga nokkuð langan róður fyrir
höndum í myrkri.
Þeir eru velbúnir siglingaljósum og hafa báðir tveir
mikla reynslu af næturróðrum.
Aðstæður eru því breyttar frá miðnætursólar róðrum
Gísla kayakræðara fyrir Norðurlandinu á fyrrihluta ferðarinnar....
Kl. 20
Nú eru þeir félagar staddir suður af Pétursey á
Sólheimasandi. Ljóst er að þeim hefur gengið vel
gegnum brimið við Dyrhólaey. þeir hafa lagt að baki
um 8 km...
Kl 23.10
Þeir félagar virðast lentir núna nálægt þeim stað sem
GummiJ gefur upp hér að neðan með lendingu.
Það er 10.5 km austan við Holtsós.
Þarna liggur slóði niður að sjó.
Þeir félagar hafa því róið um 30 km á þessum 40.
róðrarlegg Gísla.
Þetta mun vera stysti róðrarleggur Gísla til
þessa.... Nýtt met.
KL 23.30
Var að tala við Örlyg. Þetta var hörku sjóferð hjá
þeim félögum . Mestan hluta leiðarinnar frá Dyrhólaey
var bullandi lens. Hraðinn á þeim skaust uppí 18
km/klst þegar mest gekk á. Þetta var því erfiður
róður þó stuttur væri á mælikvarða Gísla kayakræðara
Það var síðan brimlending í meters hárri öldu þar sem
Karl bóndi á Efstu-Grund beið þeirra á sandinum.
Örlygur var heppinn með sína öldu -hún skilaði honum
hátt upp í fjöru ,mjúklega og hratt.
En alda Gísla var knappari og bar hann styttra upp.
Hann þurfti því að koma sér eldsnöggt úr bátnum -
sjávarmegin við hann-og með það sama kom önnur alda
og þeytti bátnum langt uppá sand- en bleytti vel í Gísla.
Allt fór þetta vel.
Og nú eru þeir félagar á leiðinni með Karli bónda til
hans heima og þar munu þeir dvelja fram yfir morgun
mjaltir.
Væntanlega fá þeir spenvolga mjólk áður en þeir
leggja í Vestmannaeyjaför -á morgun
Frá heimsókn til Karls og Önnu á Efstu-Grund :
picasaweb.google.com/lh/sredir?uname=hap...mhswP&feat=emailPost edited by: Sævar H., at: 2010/01/11 23:33